Í HNOTSKURN – Lánsveð

Fjármálastofnunum ber að viðhafa fagleg vinnubrögð í samskiptum sínum við ábyrgðarmenn – Lánsveð

 • Lánsveð er þegar einstaklingur lætur fasteign sína að veði fyrir láni annars manns.
 • Ábyrgðarmaður er sá sem skrifar undir yfirlýsingu um að hann ábyrgist skuld annars manns.
 • Ef fjármálafyrirtæki fara ekki eftir skyldum sínum þá getur það leitt til þess að ábyrgðarmaðurinn eða lánsveðsveitandi losni undan ábyrgð sinni en fyrir því eru fjölmörg dómafordæmi.
 • Bankar og sparisjóðir gengu undir samkomulag árið 1998 og 2001 sem veitir ábyrgðarmönnum og þeim sem veita lánsveð töluverða réttarvernd.
 • Vafi leikur á því hvort að lífeyrissjóðir séu bundnir af þeim meginreglum sem fram koma í samkomulaginu frá 1998 og 2001.
 • Með lögum nr. 32/2009 voru lögfestar reglur um réttarvernd ábyrgðarmanna og lánsveðsveitenda.
 • Við veitum ráðgjöf og aðstoðum einstaklinga og fyrirtæki við að leita réttar síns.
 • Fyrsti fundur er endurgjaldslaus en þar munum við fara yfir gögn frá viðkomandi og meta hver réttarstaða hans er. Í kjölfarið tökum við okkur að leita réttar viðkomandi ef vilji stendur til slíks. Rétt er að taka fram að engin skuldbinding er í því fólgin að koma á fund og fá mat á stöðu sinni.

BANKAR OG SPARISJÓÐIR

Gengust undir samkomulag árið 1998 og 2001 sem veittu ábyrgðarmönnum og lánsveðsveitendum réttarvernd.

Með samkomulagi sem var fyrst gert árið 1998 og endurnýjað árið 2001 gengust bankar og sparisjóðir undir skyldur sem miðuðu að því lánveitingar yrðu miðaðar við greiðslugetu greiðanda og eigin tryggingar. Í þeim efnum voru settar meginreglur sem áttu að vernda ábyrgðarmenn.

Var þar m.a. mælt fyrir um að fjármálafyrirtæki bæri að meta greiðslugetu greiðanda, nema ábyrgðarmaðurinn óskaði skriflega eftir því að svo yrði ekki gert. Hins vegar ef ábyrgð var veitt fyrir láni umfram 1 milljón króna var fortakslaus skylda til að greiðslumeta skuldara, svo lengi sem ekki væri um að ræða hjón eða einstaklinga í óvígðri sambúð.

Einnig var mælt fyrir um að fjármálafyrirtækjum bæri að gefa út upplýsingabæklinga um skuldaábyrgðir og veðsetningar og afhenda þau til ábyrgðarmannsins. Þá var tekið fram að tryggt skyldi að ábyrgðarmaður gæti kynnt sér niðurstöðu greiðslumats áður en hann gengist í ábyrgðina.

Í kjölfar þess að ábyrgðarmaður gengist undir skuldbindingu sem átti að vera í samræmi við greiðslugetu greiðanda sem væri búið að greiðslumeta og eftir að ábyrgðarmaður væri upplýstur um skyldur sínar og afhentur upplýsingabæklingur bar fjármálafyrirtækinu að tilkynna ábyrgðarmanninum um vanskil ef slík yrðu.

Þá var sérstaklega mælt fyrir um að óheimilt væri að stofna til skuldaábyrgðar eða veðsetningar eftir gildistöku samkomulagsins án þess að tilgreina fjárhæð skuldbindingarinnar.

Brot gegn einstökum ákvæðum samkomulagsins geta leitt til þess að ábyrgð verði talin ógild en fyrir því eru fjölmörg dómafordæmi.

LÍFEYRISSJÓÐIR

Réttaróvissa er um það hvort lífeyrissjóðir séu bundnir af þeim meginreglum sem fram koma í samkomulaginu.

Lífeyrissjóðir voru ekki aðilar að samkomulaginu árið 1998 eða 2001. Hins vegar vaknar sú spurning hvort að þeir séu engu að síður bundnir af þeim meginreglum þeim sem þar koma fram.

Þær meginreglur sem fram koma í samkomulaginu frá 1998 og 2001 eru eðlilegar og byggjast á heilbrigðum viðskiptaháttum og eru rök til þess að reglurnar hafi orðið að venjum á fjármálamarkaði en slíkt kom til að mynda fram í áliti nefndar um réttindi og skyldur í viðskiptum neytenda við fjármálafyrirtækja árið 2004. Einnig má halda því fram að reglurnar feli í sér óskráðar meginreglur en það sjónarmið birtist t.d. í dómi Hæstaréttar í máli nr. 630/2013.

Þó svo að héraðsdómur hafi hafnað kröfu um ógildingu vegna brota lífeyrissjóðs á reglum samkomulagsins hefur enn hefur ekki komið hreint fordæmi frá Hæstarétti. Þó má draga ákveðnar vísbendingar af dómi réttarins í máli nr. 3/2003 en þar var veðsetning dæmd ógild.

Um ábyrgð lífeyrissjóða ríkir þar af leiðandi vafi þar sem það á eftir að fá úr því fyllilega skorið hvort að lífeyrissjóðir séu bundnir af reglum samkomulagsins eður ei. Fyrir því vantar skýrt fordæmi frá Hæstarétti.

Hvað lífeyrissjóðina varðar þá leitum við eftir einstakling sem er tilbúinn að fara með mál sitt alla leið, sé tilbúinn að taka þeim kostnaði sem felst í því ef málið tapast en njóta góðs af því ef málið vinnst.

LÖGFESTING

Þann 2. apríl 2009 voru sett lög nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn.

Með lögunum var um að ræða nokkurs konar lögfestingu á samkomulaginu frá 1998 og 2001. Lögin taka til banka, sparisjóða, vátryggingafélaga, lífeyrissjóða, LÍN, verðbréfafyrirtækja, Íbúðalánasjóðs og fleiri.

Markmið laganna var að draga úr vægi ábyrgða og stuðla að því að lánveitingar yrðu miðaðar við greiðslugetu lántaka og hans eigin tryggingar. Einnig var lögfest að;

 • Lánveitandi skyldi meta hæfi lántaka til að standa í skilum með lán þar sem ábyrgðarmaður gengst í ábyrgð til tryggingar efndum hans.
 • Greiðslumat skyldi byggt á viðurkenndum viðmiðum.
 • Fyrir gerð ábyrgðarsamnings skyldi lánveitandi upplýsa ábyrgðarmann skriflega um áhættu því samfara.
 • Lánveitandi skyldi senda ábyrgðarmanni skriflega tilkynningu um vanefndir lántaka o.fl.
 • Ekki yrði gerð aðför í fasteign þar sem ábyrgðarmaður býr eða fjölskylda hans ef krafa á rót sína að rekja til persónulegrar ábyrgðar.

UM OKKUR

Lánsveð.is er í umsjón Vilhjálms Þ. Á. Vilhjálmssonar hdl. og Þórðar Guðmundssonar hdl.

Vilhjálmur hefur starfað sem lögfræðingur og síðar lögmaður í 7 ár. Hann öðlaðist málflutningsréttindi fyrir héraðsdómstólum í október 2011 og hefur síðan þá farið með yfir 20 mál fyrir dómstóla sem mörg hver lúta að réttarstöðu einstaklinga gagnvart fjármálastofnunum.

Vilhjálmur hefur í störfum sínum fengist við að rannsaka dómafordæmi og fræði um stöðu ábyrgðarmanna og skyldur fjármálafyrirtækja og við þau störf kviknaði sú hugmynd að gera upplýsingar aðgengilegri fyrir þá sem eru í vangaveltum um slík mál. Telur Vilhjálmur að ósóttar réttarbætur séu fyrir hendi í þessum málaflokki og án efa margir í þeirri stöðu að hafa ekki hugmynd um réttarstöðu sína og möguleika í þeim efnum. Þar sem um getur verið að ræða mikla hagsmuni fyrir einstaklinga er boðið upp á fund þar sem farið verður yfir réttarstöðu viðkomandi að kostnaðarlausu.

Þórður hefur starfað sem lögfræðingur og síðar lögmaður í 9 ár, fyrst hjá embætti borgarlögmanns (Reykjavíkuborg) og síðar hjá lögmannsstofunni Borgarlögmenn. Hann öðlaðist málflutningsréttindi fyrir héraðsdómstólum í febrúar 2008 og hefur flutt yfir 30 mál fyrir dómstólum. Þórður hefur ritað álitsgerðir um stöðu ábyrgðarmanna fyrir einstaklinga og lögaðila og sótt fjölmörg mál er varða réttarstöðu viðskiptavina fjármálastofnana bæði fyrir úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki og dómstóla.

BÓKAÐU FUND

VILTU KANNA RÉTTARSTÖÐU ÞÍNA ÞÉR AÐ KOSTNAÐARLAUSU?

Þér stendur til boða að bóka fund með lögmanni án kostnaðar þar sem farið verður yfir réttarstöðu þína og hvort tilefni sé til aðgerða.

Hægt er að hafa samband í síma 841-2277 frá kl. 9 – 18 eða bóka fund hér að neðan.

Mælst er til að komið sé á fund með öll þau gögn sem lántaki eða ábyrgðarmaður hefur fengið frá viðkomandi lánastofnun. Um getur verið að ræða:

 • Skuldaskjalið sjálft (lánssamningur eða skuldabréf)
 • Sjálfskuldarábyrgðaryfirlýsing
 • Forsendur og niðurstöður greiðslumats (ef greiðslumat fór fram)
 • Lánsumsókn
 • Skilmálabreytingar (ef við á)
 • Önnur skjöl sem tengjast lánveitingunni, ábyrgðinni eða veðláninu.

Framangreind gögn eiga að vera aðgengileg hjá viðkomandi lánastofnun

Við höfum samband við þig fljótt og mælum okkur mót

Nafn

Kennitala

Netfang

Símanúmer

Skilaboð

Ég er ábyrgðarmaður eða hef veitt lánsveð hjá:
 Banka eða sparisjóði Lífeyrissjóði